

Þær fréttir bárust um liðin mánaðarmót að Sony hefði keypt ráðandi hlut í hinu fornfræga leikjafyrirtæki Bungie. Kaupverðið var $3,6 milljarðar bandaríkjadala en Bungie mun að sögn starfa áfram sem sjálfstæð eining innan samsteypunnar og halda áfram að gefa út leiki fyrir PC og aðrar leikjatölvur.

Saga Bungie nær aftur um 30 ár en fyrirtækið skapaði Halo sem varð einn söluhæsti titill á Xbox leikjatölvum eftir að Microsoft eignaðist Bungie árið 2000. Sjö árum síðar gekk sá samruni til baka og Bungie varð aftur sjálfstætt fyrirtæki, en Microsoft hélt réttinum til að þróa og gefa út Halo leikjaseríuna. Bungie hefur frá þeim tíma verið einna þekktast fyrir fyrstu persónu skotleikina Destiny og Destiny 2 en fyrirtækið er enn að gefa út efni fyrir síðarnefnda titilinn.

Framtíðarsýn Bungie er að verða alþjóðlegt margmiðlunarfyrirtæki með áherslu á fjölbreytt afþreyingarefni og mun samruninn við Sony hjálpa þeim að vaxa og dafna, var haft eftir Pete Parsons, framkvæmdastjóra Bungie.