

Nokkuð óvænt var tilkynnt um kaup Microsoft á leikjaútgefandanum Activision Blizzard á mánudaginn. Um er að ræða stærstu yfirtöku í sögu leikjaiðnaðarins og jafnframt stærstu fyrirtækjakaup Microsoft frá upphafi. Kaupverðið nam $68,7 milljörðum dollara. Til samanburðar má nefna að árið 2020 keypti fyrirtækið Bethesda Softworks fyrir $7.5 milljarða bandaríkjadala.
Activision er einna þekktast fyrir útgáfu Call Of Duty seríunnar sem hefur árum saman verið meðal söluhæstu titla á leikjamarkaðnum. Fyrirtækið á líka útgáfurétt á öðrum vinsælum leikjaseríum eins og Spyro, Crash Bandicoot og Tony Hawk’s Pro Skater.

Undir Activision heyra svo stúdíó eins og Treyarch, Infinity Ward, Sledgehammer Games, Raven og Toys for Bob.
Blizzard Entertainment er m.a. þekkt fyrir World of Warcraft, Diablo og Overwatch.
Með í kaupunum fylgir einnig útgefandinn King sem hefur sérhæft sig í leikjum fyrir farsíma. Þeirra þekktasta afurð er Candy Crush.

Forstjóri Activision Blizzard, Bobby Kotick, hefur legið undir ásökunum undanfarið vegna frétta af kynbundnu áreiti og mismunun innan samsteypunnar. Fastlega er búist við því að hann verði látinn fjúka þegar samruninn hefur gengið í gegn, væntanlega í lok þessa árs.
Hvaða áhrif yfirtakan mun hafa á útgáfu leikja fyrir PlayStation á eftir að koma í ljós en gera má ráð fyrir því að Microsoft muni nota tækifærið og reyna að styrkja stöðu XBox leikjatölvunnar og Game Pass áskriftarþjónustunnar sem eiga í harðri samkeppni við afurðir Sony og Nintendo.