Leikurinn Gran Turismo Sport kom út fyrir PlayStation 4 árið 2017. Í þessari útgáfu leiksins er mikil áhersla lögð á fjölspilun og spilun á neti og er vaxandi eSports sena í kringum hann. Hér á Íslandi er líflegur hópur sem keppir reglulega í Gran Turismo, upphafsmaður og forsprakki þess hóps er Guðfinnur Þorvaldsson (Guffi, PSN: guffaluff). Við plötuðum hann til að segja okkur aðeins nánar frá gleðinni.

Heill og sæll. Það kom mér skemmtilega á óvart að lesa að það væru yfir 260 virkir meðlimir í grúbbunni GTS Iceland. Það þýðir að ég er ekki eini vitleysingurinn sem spilar Gran Turismo Sport.

Svo sannarlega ekki! Við erum all margir vitleysingarnir sem þeysumst um stafrænar kappaktursbrautir Gran Turismo Sport!

Segðu mér aðeins frá startinu. Það tók einhvern tíma að komast á ráspól.

Já, það má með sanni segja að staðan á hópnum í dag sé fjarri því sem ég hafði reiknað með þegar ég fór af stað með þetta. Ég stofnaði GTS Iceland í upphafi árs 2018, en hugmyndin kom löngu fyrr.

Það var árið 2012, þá spilandi Gran Turismo 5 á PlayStation 3, sem ég fékk þá hugmynd að það gæti verið skemmtilegt að reyna að smala saman einhverjum smá hóp og skipuleggja íslenska mótaröð í Gran Turismo. Ég setti upp draft í Word skjali, en hugmyndin fór ekki lengra en það. Ég var alveg viss um að það væri ekki nægur áhugi til þess að það tæki því að standa í þessu, þannig það fór svo að ég yfirgaf hugmyndina og hún féll í gleymsku.

6 árum seinna, með tilkomu Gran Turismo Sport á PlayStation 4, fór ég að daðra við þessa hugmynd aftur. Á þessum 6 árum hefur leikjasenan breyst gífurlega og rafíþróttir (eSports) hafa verið í veldisvexti. Gran Turismo Sport er einmitt mjög fókuseraður á fjölspilun og var því hentugur til þess að hrinda þessu loksins í framkvæmd.

Það gekk þó ekki mjög vel í fyrstu að koma þessu af stað. Í fyrstu keppni GTS Iceland, sem fór fram í apríl 2018, voru að mér meðtöldum 12 keppendur. Tæplega helmingur voru vinir og vinnufélagar úr ELKO þar sem ég vann á þeim tíma, en þetta var allavega byrjun.

Fleiri keppendur bættust við jafnt og þétt. Þegar líða tók á annað keppnistímabilið var orðið ljóst að fjöldi áhugasamra var orðinn mun meiri en sá fjöldi sem kemst fyrir í hverri keppni. Ég ákvað því að setja af stað nýja deild, sem var opin öllum, frá og með þriðja keppnistímabili sem hófst haustið 2019. Deildin var nefnd Tier 2, og upphaflega deildin þá Tier 1.

Áfram hélt áhuginn að vaxa og fjöldi virkra meðlima í hópnum sífellt að aukast, og fór það svo að frá og með fjórða keppnistímabili sem hófst núna í haust, og stendur yfir fram á vor, var þriðja deildin sett af stað og nefnd Tier 3.

Í millitíðinni höfum við fengið fengið nokkur fyrirtæki með okkur í lið. Frá og með þriðja keppnistímabili hafa AutoCenter og veitingastaðurinn Tasty verið styrktaraðilar deildarinnar, en svo bættist Hafið Fiskverslun við á núverandi tímabili. Einnig hef ég staðið fyrir stökum keppnum/mótum í samstarfi við Domino’s, Senu/Smárabíó og Porsche á Íslandi.

Umræðuhópurinn okkar á Facebook er þegar þetta er skrifað kominn í yfir 270 meðlimi, sem eru auðvitað mis virkir, en nokkuð er um að fólk gangi í hópinn til þess að fylgjast nánar með því sem gerist hjá okkur, sem er bara frábært. Nýjasta þróunin er svo að efsta deildin, Tier 1, er nú orðinn fastur liður á sjónvarpsrásinni Stöð 2 E-Sport, en einnig mun verða einhver fréttaflutningur af mótaröðinni á Vísi samhliða því.

Það er því óhætt að segja að GTS Iceland hefur farið fram úr mínum björtustu vonum og verður spennandi að sjá hvernig hópurinn heldur áfram að þróast. Næsta stóra breyting verður svo auðvitað að við munum færa okkur yfir á PlayStation 5, sem er að lenda eftir nokkra daga, og Gran Turismo 7, en hann er væntanlegur á fyrri helming næsta árs að öllu óbreyttu. Það verður mjög áhugavert að sjá hvað hann mun bjóða upp á og hvaða möguleikar opnast fyrir GTS Iceland í kjölfarið.

Hvernig eru deildirnar? Eruð þið að keppa við erlend lið?

Eins og ég kom inn á þá eru deildirnar þrjár talsins. Tier 1 er deildin sem kom þessu öllu af stað, en hún viðheldur upphaflegu sýn minni, hugmyndinni sem skaut upp kollinum árið 2012. Keppnirnar eru langar, u.þ.b. 1 klst og þarf að huga að keppnisplani með tilliti til bensín- og dekkjaeyðslu. Á tímabilinu eru svo tvær þolaksturskeppnir. Önnur þeirra er 2 klst akstur á LMP1 bílum á Le Mans um miðbik tímabilsins, og svo endar tímabilið alltaf á 2 klst keppni á Nordschleife. Deildin er lokuð og er keppendahópur ákvarðaður í aðdraganda tímabilsins með tímatöku.

Tier 2 hóf göngu sína sem opin deild fyrir þá sem komust ekki í Tier 1, en er í dag einnig lokuð deild með tímatöku fyrir tímabilið. Keppnirnar eru styttri, eða í kringum 30 mínútur hver, að undanskyldum Le Mans og Nordschleife sem eru 1 klst hvor.

Tier 3 gegnir nú sama hlutverki og Tier 2 gerði í upphafi, en deildin er opin öllum þeim sem ekki keppa í hinum tveimur deildunum og er fullkominn vettvangur til að prófa sig áfram og ná sér í reynslu. Keppnisfyrirkomulag er mjög svipað og í Tier 2 deildinni.

Ég gæti haft þetta mjööög langt til að fara nánar út í smáatriði, en áhugasamir geta lesið allt um deildirnar á heimasíðunni okkar, http://www.gtsiceland.com

Við keppum ekki við nein erlend lið, heldur er þetta alíslensk mótaröð þar sem allir keppendur eru búsettir hér á landi.

Rafíþróttir (E-sports) njóta æ meiri vinsælda, nú hafið þið styrktaraðila og eruð sendir út beint á sjónvarpsstöðvum.

GTS vagninn rúllar og ekkert fær stoppað okkur!

Vegna kastljóssins, áttu ekki æ erfiðara með að falla í fjöldann? Gefur þú margar eiginhandaráritanir?

Haha, ég get nú ekki sagt það, en það hefur einu sinni gerst að ég var spurður á víðavangi hvort ég væri Guffi í GTS Iceland. Mér fannst það mjög skondið, en verð seint talinn sem þekktur Íslendingur.

Að lokum. Hvaða apparat keyrir þú í RL? Myndir þú mæla með því ökutæki?

Ég keyri um á 2012 Ford Fiesta. Kvikindið telur heil 59 hestöfl og er því 10x aflminni en tækin sem við brúkum í GTS Iceland. Ég get vel mælt með honum, hann kemur mér frá A til B, og jafnvel C, og er ódýr í rekstri. Myndi þó seint fara með hann í brautarakstur.

Nánar:

Vefsíða GTS Iceland: http://www.gtsiceland.com

GTS Iceland á FaceBook: https://www.facebook.com/groups/2075790072439013

By erkiengill

Arnar er miðaldra karlmaður sem hefur áhuga á tölvuleikjum. Hann er mjög lélegur spilari, sérstaklega í PvP leikjum. Hefur samt á langri ævi og mörgum leikjum safnað yfir 1600 PlayStation Trophies. Fyrsta leikjavélin sem hann eignaðist var Atari 800XL og var 64Kb.

Leave a Reply