

Framhaldsins af hinum vinsæla PlayStation leik, The Last of Us, hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu hjá spilurum undanfarin misseri. Þessi nýjasta afurð höfunda Uncharted seríunnar er væntanleg fyrir PS4 þann 19. júní nk.

Leikurinn átti upphaflega að koma út fyrr á árinu, en Naughty Dog, leikjastúdíóið á bak við hann, frestaði útgáfunni til að fínpússa hann og hnýta lausa enda. Einhver hluti hans lak á netið fyrr í vor og varð það ekki til þess að minnka spennuna hjá aðdáendum leiksins.

Upprunalegi leikurinn var gefinn út fyrir PS3 árið 2013. Hann er af mörgum talinn sá besti sem kom út fyrir þá kynslóð leikjatölva. Remastered útgáfa kom svo fyrir PlayStation 4 ári seinna.

The Last of Us Part II kemur út eins og áður sagði, næsta föstudag, þann 19. júní fyrir PlayStation 4. Einhverjir leikjavefir hafa þó fengið leikinn nú þegar í hendurnar og eru byrjaðir að birta umsagnir og gagnrýni. Samkvæmt því sem hefur verið sagt til þessa gefur TLOU2 fyrirennara sínum ekkert eftir. Taka sumir jafnvel svo djúpt í árina að segja að leikurinn sé sá flottasti sem gerður hefur verið fyrir PS4.

Nánar:
Stikla: https://www.youtube.com/watch?v=II5UsqP2JAk
PlayStation.com: https://www.playstation.com/en-us/games/the-last-of-us-part-ii-ps4/
Umsögn TechRadar: https://www.techradar.com/reviews/the-last-of-us-2-review