

Tripwire Interactive, sem sköpuðu drápsorgíuna Maneater fyrr á árinu, tilkynntu á dögunum að morðóða skepnan verði einnig með PlayStation fórnarlömbum á næstu kynslóð, PS5, sem væntanleg er í nóvember. Þeir stefna á að geta sleppt kvikindinu lausu á saklausa menn og málleysingja um leið og nýja vélin kemur út, þ.e. 12. nóvember í Norður-Ameríku og viku síðar í Evrópu. Spurning um að nýta tímann þangað til og flytjast búferlum, hátt til fjalla þar sem fátt er um höf og fiska.

En þetta er ekki búið. Þeir sem eiga leikinn á PS4 fá fría uppfærslu í PS5 útgáfuna þegar þeir fá sér PlayStation 5. Jibbíí, Tripwire Interactive, þið hafið tryggt útrýmingu strandbyggða vítt og breitt um landið. Vel gert.


Maneater kom fyrst út fyrir PlayStation 4 í maí á þessu ári. Síðan þá hafa margir endað í maga skepnunnar.



Skjáskot og myndbönd á þessari síðu eru úr PS4 útgáfu leiksins.
Nánar:
Manndráparinn á Twitter: https://twitter.com/maneatergame
Tripwire Interactive: https://tripwireinteractive.com
Stikla frá útgáfu leiksins á PS4: