Supermarket Shriek

Búðinni rústað og geitinni kennt um

Framleiðandi: BillyGoat Entertainment
Útgefandi: PQube Indies
Útgáfudagur: 22.10.2020

Það er ekki nóg með að verslunum sé rústað, lagerinn er tekinn líka.

Ég hef yfirleitt gaman af skrýtnum sögum og leikjum, því furðulegri, því betra. Ég hef líka lengi verið þeirrar skoðunar að það vanti fleiri geitur í tölvuleiki. Fyrir utan Goat Simulator hafa þessar skemmtilegu skepnur verið af skornum skammti í leikjaheiminum, en nú hefur norðurírska leikjastúdíóið BillyGoat bætt þar úr og gefið út stórskrýtna (shopping) kart kappakstursleikinn Supermarket Shriek.

Ímyndaðu þér, þú ert nýstiginn úr Strætó, þá kemur aðvífandi geit í innkaupakerru á miklum hraða. Við samstuð ykkar endar þú með téðri geit í kerrunni og eina leiðin til að stjórna þessu óvenjulega ökutæki er að góla upphátt. Þegar þú öskrar, beygir kerran í eina átt, en þegar geitin hljóðar, beygir hún í hina. Þegar þið bæði gólið nokkurn veginn jafn hátt í kór, keyrir kerran beint. Þessu stjórnar þú með L2 og R2 hnöppunum á fjartýringunni, nú eða hljóðnemum ef þú ert mjög hugrökk/hugrakkur.

Hér eru þrír spilarar í co-op. Ég prófaði því miður ekki þann hluta leiksins.

Ykkar verkefni er svo að þræða verslanir bæjarins og komast í gegnum margvíslegar þrautabrautir á leiðinni. Eftir því sem þið akið nokkurn veginn klakklaust í gegnum fleiri fyrirtæki opnast fyrir fleiri hverfi borgarinnar og þrautirnar verða erfiðari eftir því sem líður á leikinn.

Borðin eru afar fjölbreytt og verkefnin sem þarf að leysa til að komast í gegnum þau einnig. Þið getið þurft að keyra niður marga stafla af dósum, safna öllum vörum á innkaupalista sem þið fáið eða taka þátt í kappakstri við andstæðinga sem tölvan stjórnar. Á hverju borði safnar þú einni til þrem stjörnum eftir því hvernig gekk, ef þú rennur út á tíma eða klárar ekki verkefni þarftu að byrja borðið upp á nýtt.

Hjáááálllllppppp!!!!

Ég verð að viðurkenna að ég prófaði ekki co-op möguleikann í leiknum, fann engan nógu klikkaðan til að taka þátt í slíkri tilraunastarfsemi með mér. Og ég notaði heldur ekki míkrafóna eins og á að vera hægt að gera í leiknum, það hefði sennilega endað með útburði (ég á nágranna).

Alltaf gaman í Barnalandi.

Ég eyddi því tíma mínum í leiknum að spila hann sóló og get ekki sagt annað en að ég hafi haft gaman af. Enda swag fyrir svona steypu og aldrei of mikið af geitum í tölvuleikjum, að mínu mati.

Helstu aðfinnslur sem ég get týnt til er að stýringunni er erfitt að venjast, ég beygði mikið í vitlausa átt með tilheyrandi tjóni á framstillingum verslana. Eftir því sem þú kemst lengra í leiknum verða brautirnar erfiðari, ljúkir þú þeim ekki þarftu að byrja hverja þeirra upp á nýtt. Þarna hefði e-k checkpoint kerfi hjálpað.

Að því sögðu get ég ekki annað sagt en að þarna sé á ferðinni fyndinn og áhugaverður leikur sem ætti að létta brúnina á spilurum og geitavinum. Mæli því hiklaust me-he-he-meeeð.

Fari það í heitasta!

Lokaorð: Loksins er geit gert hátt undir höfði í tölvuleik. Svona þvæla er pottþétt ekki fyrir alla, en ég skemmti mér konunglega með geitinni minni.

Plús: Klikkaður húmor, fjölbreytt borð og GEIT.

Mínus: Erfitt að venjast stýringunni í leiknum, hátt erfiðleikastig eftir því sem líður á.

Einkunn: 7.5/10

Leikurinn var spilaður á PlayStation 4 Pro. Notaður var kóði frá útgefanda.

Stikla:

Sjá einnig:

Umfjöllun PS Frétta: Gólaðu með geitinni í Supermarket Shriek

Vefsíða: https://pqube.co.uk/supermarket-shriek

Geitin á Twitter: https://twitter.com/officialgoat

Leikurinn á PlayStation Store: https://store.playstation.com/en-gb/product/EP4293-CUSA23530_00-4107530741489025