Legend of Heroes: Trails of Cold Steel IV

Hetjur gera upp sakirnar í Trails of Cold Steel IV

Framleiðandi: Nihon Falcom
Útgefandi: NIS America
Útgáfudagur: 27.10.2020

Áður en lengra er haldið skal það tekið fram að höfundur þessarar umsagnar hefur ekki áður spilað JRPG leik né heldur er hann sérstakur áhugamaður um japanskar teiknimyndir. Hann þykist þó skilja aðdráttarafl þeirra og var hugfanginn af fegurðinni og flóknu sögunum í Trails of Cold Steel IV.

Það var nokkur áskorun að taka að sér það verkefni að semja umsögn um epískan lokakafla seríu sem ég þekki ekki og hef aldrei spilað. Það sem ég var búinn að lesa mér til um apparatið sagði að leikurinn væri 100+ klst. í spilun og helst þyrfti að vera búið að spila kaflana á undan (Trails of Cold Steel I-III) til að átta sig á samhengi sögunnar.

Þar sem höfundur er týpan sem hendir alltaf leiðbeiningarbæklingnum varð ekki aftur snúið og ég byrjaði á þessu meistaraverki. Here goes…

Ath: Við fjöllum afar lítið um sjálfa söguna í leiknum til að spilla ekki fyrir þeim sem eiga eftir að kaupa leikinn. Myndir úr umfjölluninni eru allar úr upphafskafla leiksins.

Nihon Falcom er japanskt fyrirtæki með langa sögu. Það var stofnað árið 1981 og er því eitt af elstu starfandi fyrirtækjum í framleiðslu tölvuleikja. Falcom var brautryðjandi á ýmsum sviðum leikjahönnunar og er talið að fyrirtækið hafi í raun fundið upp japanska hlutverkaleiki (JRPG eða Japanese RPG). Auk Legend er þeirra helsta afurð serían Ys.

Legend of Heroes byrjaði sem hluti af annari seríu sem hét Dragon Slayer og kom út seint á 9. áratug síðustu aldar. Síðan þá hafa alls 14 leikir verið gefnir út í Legend röðinni, með hinum ýmsu undirköflum og spin-off ævintýrum. Sumir af þessum leikjum hafa enn ekki ratað til Vesturlanda og eru aðeins til í japanskri útgáfu.

Nihon Falcom gaf fyrsta leikinn í Trails of Cold Steel seríunni út árið 2013 og hafa enskar þýðingar leikjanna fylgt fljótlega á eftir japönsku útgáfunum. Leikur IV (4) er lokakaflinn í sögunni að þessu sinni og birtast þar nýjar sögupersónur auk þess sem við fáum að spila karaktera úr fyrri leikjum seríunnar.

Trails of Cold Steel IV er beint framhald af leik III og gerist upphaf hans tveimur vikum eftir atburði fyrri leiksins. Ríkið Erebonian er á barmi styrjaldar. Hetjurnar úr Class VII kljást við illa stórveldið sem hótar algjörum yfirráðum. Hetja fyrri styrjalda og kennari Class VII, Rean Schwarzer, er horfinn og þurfa nemendur, gamlir og nýir, að sameinast til að forða algjörri tortímingu veraldarinnar.

Við höfum ekki fleiri orð um söguþráð Trails, þetta er eitthvað sem þú þarft að spila til að upplifa. Fyrir mig var þetta meiriháttar reynsla, eftir langan og flókinn inngangskafla byrjar hasarinn og þú hefur verið kynntur fyrir helstu söguhetjum og bardagakerfi leiksins. Bardagar í leiknum eru turn-based og þú getur notað vopn og krafta hetjanna í sameiningu auk þess sem hver og ein þeirra hefur sína eiginleika.

Þetta er ákaflega djúpt kerfi hvar þú getur uppfært og fiktað í stillingum eins mikið og þú vilt. Yfirleitt stjórnar þú hóp fjögurra persóna í einu og er auðvelt að skipta á milli þeirra, jafnvel í miðjum bardaga. Milli sögukafla ferðast þú um veröld Erebonian, berst við andstæðinga og safnar fjársjóðum sem gefa peninga í leiknum, einnig eru smáleikir (mini-games) milli borða hvar þú getur tekið þátt í allskonar bralli.

Allt sem þú gerir í leiknum hjálpar þér að hækka level og eiginleika persónanna og opnast fleiri spilanlegir karakterar eftir því sem líður á leikinn. Þetta getur orðið smá yfirþyrmandi fyrir nýgræðing eins og mig því persónurnar og sögur þeirra eru margar. Hver var aftur þessi með bláa hárið…?

Það sem hreif mig mest við Trails of Cold Steel IV er hvað þetta er flott og tæknilega fullkomin upplifun. Höfundar leiksins, Nihon Falcom, eru heldur ekki byrjendur í framleiðslu flottra RPG leikja og það sést og heyrist langar leiðir. Persónurnar og sögurnar eru áhugaverðar, teikningar og tónlist í leiknum eru í afar miklum gæðum. Ég var svo heillaður af öllu sem fyrir augu bar að ég stóð mig sjálfan að því að taka ótal skjáskot af upphafskafla leiksins.

Lokaorð: Aðdáendur seríunnar og JRPG leikja ættu ekki að láta þennan leik fram hjá sér fara. Ákaflega vel unnin afurð sem heillar jafnvel þá sem ekki eru vanir þessari tegund leikja.

Plús: Efnismikil og epísk saga, fágað bardagakerfi. Persónurnar fjölbreyttar og sögurnar spennandi.

Mínus: Sagan er lengi að fara af stað og getur orðið ruglingsleg á köflum því persónurnar eru svo margar.

Einkunn: 8.5/10

Leikurinn var spilaður á PlayStation 4 Pro. Notaður var kóði frá útgefanda.

Stikla:


Sjá einnig:

Umfjöllun PS Frétta: https://psfrettir.com/2020/10/01/legend-of-heroes-trails-of-cold-steel-iv

Vefsíða: http://thelegendofheroes.com/tocs4

NIS America: https://nisamerica.com/games/trails4

The Legend of Heroes: Trails of Cold Steel IV.