
Spólað til sigurs í Inertial Drift
Framleiðandi: Level 91 Entertainment
Útgefandi: PQube Indies
Útgáfudagur: 11.09.2020

Bílaleikir í dag eru flestir ökuhermar (simulators) þar sem framleiðendur reyna að hafa allt sem raunverulegast. Þar má nefna leiki eins og Gran Turismo, Asetto Corsa, F1 seríuna og fleiri.
Inertial Drift fer allt aðrar leiðir, hér er áherslan frekar á hraða og tilfinningu. Þetta er svokallaður twin-stick arcade racer, þar sem þú notar vinstri stýripinnann til að stýra en þann hægri til að stjórna afturenda bílsins, eða skriðinu á honum. Þarna gildir að spóla, slæda og drifta sem hraðast í gegnum brautirnar í leiknum. Þetta er allt miklu skemmtilegra í reynd, þegar maður hefur vanist stýringunni og er hættur að stíga óvart of mikið á bremsuna.

Umhverfið í leiknum er retró 90’s, bílarnir og persónurnar í leiknum eru teiknaðar í cel-shading stíl og það er söguþráður, þó þunnur sé. Spilir þú söguna opnast fyrir fleiri bíla. Bílarnir í leiknum eru í heildina 15 og hefur hver þeirra mismunandi aksturseiginleika. Í þessum leik gildir að aka hratt og gera það með stíl. Þú þarft að hafa meira fyrir því að láta veggripið losna á sumum bílum en öðrum.

Hægt er að spila söguna sem ein af fjórum persónum í leiknum sem hver ekur sinni tegund af bílum. Eftir því sem sögunni vindur fram opnast fyrir fleiri ökutæki til að spila í hinum hlutum leiksins.
Brautirnar sem þú ekur eru nokkrar. Átta taldi ég en flestar er hægt að aka í báðar áttir.

Spilunarmöguleikar eru margir, Tutorial, Story Mode, Challenges, Arcade, Grand Prix, Splitscreen og Online. Ég náði að spila allt nema Online, en þar gekk illa að finna aðila til að spila við. Undir Challenges er svo að finna Time Attack, Style, Endurance og Race.

Aðal virknin í leiknum er auðvitað aksturinn sjálfur og grunn mekaníkin í leiknum er alveg grjóthörð. Aksturinn er semsagt stórskemmtilegur, þegar maður hefur náð tökum á stýringu leiksins.
Gallar leiksins eru fáir og skipta litlu máli. Helst myndi ég telja að sumar valmyndirnar og persónumódelin eru frekar hrá og hefði mátt fínpússa betur. Sagan sem fylgir í Story Mode er ákaflega grunn og eiginlega bara til skrauts. Ég er heldur ekki að fíla *alla* tónlistina í leiknum.
Tíminn sem ég hef eytt í leikinn hefur verið hrein skemmtun, ég er enn að reyna að mastera nokkra bíla og brautir. Inertial Drift ku vera fyrsta afurð norðurírska leikjastúdíósins Level 91 Entertainment og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.
Lokaorð: Þetta er flottur kappakstursleikur sem kemur verulega á óvart. Stjórnun bílanna er ákaflega ánægjuleg þegar maður hefur náð tökum á stýringunni.
Plús: Hraður og skemmtilegur bílaleikur með sérstæðan stíl. Margir spilunarmöguleikar, flestir mjög vel útfærðir.
Mínus: Sumt í leiknum er heldur hrátt og hefði mátt fínpússa aðeins betur, valmyndir til dæmis. Sagan í leiknum er yfirborðskennd og lítið í hana lagt.
Einkunn: 8.0/10
Leikurinn var spilaður á PlayStation 4 Pro. Notaður var kóði frá útgefanda.
Stikla:
Sjá einnig:
Umfjöllun PS Frétta: Segðu bless við dekkin í Inertial Drift
Vefsíða: https://www.inertialdrift.com
Twitter: https://twitter.com/InertialDrift
PQube Indies: https://pqube.co.uk/latest-indie-games