Cake Bash

Allt í köku í Cake Bash

Framleiðandi: High Tea Frog
Útgefandi: Coatsink
Útgáfudagur: 15.10.2020

Gætið ykkar á dúfunni, hún kroppar af ykkur nammið.

Á dögunum kom út co-op partí fjölspilunarleikurinn Cake Bash. Sá er fyrsta afurð óháða leikjastúdíósins High Tea Frog. Þar á bæ eru engir aukvisar sem ráða ríkjum, heldur fyrrum starfsmenn Ubisoft sem hafa áður komið að hönnun leikja eins og Far Cry 4, Tom Clancy’s The Division og Watch Dogs 2.

Cake Bash er eins og áður sagði fjölspilunarleikur og hægt að spila hann 1-4 leikmenn, bæði local og online.

Komið berjunum í bökuna áður en þið verðið barin.

Í leiknum ert þú bakkelsi (7 mismunandi tegundir, kleinuhringur, kökusneið, múffa, etc.) sem þarf að keppa á móti 1 – 3 andstæðingum í því hver endar sem ljúffengasta gúmmelaðið. Verkefni sem þú þarft að leysa innihalda m.a. tertuskreytingar, að hjúpa sig með sem mestu sælgæti eða að henda ávöxtum í bökuuppskrift á meðan gráðug dúfa eltist við þig.

Borðin kallast Bash Arenas og eru alls fimm. Á milli borða eru smáleikir (minigames), alls átta að tölu. Smáleikirnir á milli borða eru styttri, þar getur þú þurft að grilla hinn fullkomna sykurpúða, forðast fljúgandi hnífapör eða raða ískúlum.

Bjarma á kinnar slær. Einn af smáleikjum (minigames) milli borða.

Þú safnar aurum í leiknum sem þú getur notað á milli borða með því að versla þér skraut, allt til þess að þú verðir valin(n) sem girnilegasta kakan í lokin. Eftir því sem þú spilar leikinn meira opnast fyrir fleiri borð og spilunarmöguleika og getur þú síðan spilað þá í gegnum Pick-a-Game í valmynd leiksins.

P1 er girnilegastur! (Skjámynd ekki af PlayStation útgáfunni.)

Hreyfingar bakkelsins eru: ganga, grípa/henda, skjótast (dash) og berja/sparka. Það skemmtilegasta er að í leiknum getur þú lamið andstæðingana og truflað þá frá því að ná markmiðum sínum. Ef andstæðingur til dæmis heldur á hlut, þarf ekki annað en banka létt í hann til að hann missi góssið. Stundum er líka hægt að henda smáhlutum í andstæðinginn til að stríða honum aðeins. Prófaðu að spila þennan við spúsuna í 2 player og sjá hvort andrúmsloftið á heimilinu verði ekki gott á eftir.

Í stuttu máli þá er leikurinn besta skemmtun, bæði single player og co-op. Borðin eru stutt og spilunin hröð og húmorinn ekki langt undan.

Allt í köku, gjörsamlega.

Það verður gaman að fylgjast með leiknum og High Tea Frog í framtíðinni. Það eina sem ég get sett út á leikinn er að borðin eru ekki mörg og spurning hversu lengi þau duga til að halda áhuganum. Frábært væri ef höfundurinn bætti þar við í framtíðinni og gæfi út aukapakka fyrir leikinn síðar.

Skreytt af list.

Lokaorð: Ljúffengur partíleikur fyrir 1-4 spilara. Spilun og útlit leiksins er fágað og flott. Borðin og smáleikirnir á milli þeirra eru mjög skemmtilega útfærð. Spurning þó hversu lengi hann heldur áhuga manns.

Plús: Líflegur og flottur partíleikur fyrir 1-4 spilara. Spilun og útlit leiksins í toppklassa. Borð og smáleikir frábærlega útfærð.

Mínus: Borðin mættu vera fleiri svo spilarar fái síður leið á leiknum.

Einkunn: 8.0/10

Leikurinn var spilaður á PlayStation 4 Pro. Notaður var kóði frá útgefanda.

Stikla:

Sjá einnig:

Umfjöllun PS Frétta: https://psfrettir.com/2020/09/27/cake-bash-gomsaet-gedveiki-a-ps4

Vefsíða: http://playcakebash.com

Útgefandinn Coatsink: https://coatsink.com